Beco var stofnað árið 1980 af þeim hjónum Baldvin Einarssyni og Ingibjörgu Sigurjónsdóttur. Sem viðurkenndur viðgerðaraðili fyrir Canon var fyrst um sinn boðið upp á sérhæfða viðgerðarþjónustu á myndavélum en eftir þann tíma var eftirspurn eftir vörum til ljósmyndunar orðin það mikil að ákveðið var að opna verslun. Árið 1985 var síðan opnuð verslun að Barónsstíg 18 og var þá boðið upp á ljósmyndapappír, filmur og helstu vörur til framköllunar. 1984 varð Beco viðurkenndur viðgerðaraðili fyrir Hasselblad og nokkrum árum seinna eða árið 1993 tók Beco einnig við söluumboðinu.

Að öllum öðrum vörumerkjum ónefndum þá fékk Beco söluumboð fyrir Leica ljósmyndavörur árið 1997 en það var fyrirtækinu mikil lyftistöng og viðurkenning að vera valið af Leica verksmiðjunum til þess að sinna slíku merki.

Á undanförnum árum hefur Beco síðan vaxið mjög hratt og fengið söluumboð fyrir helstu vörumerki á sviði ljósmyndunar en við teljum mjög mikilvægt að geta boðið sem fjölbreyttasta úrval til þess að veita viðskiptavinum sínum ávallt sem bestu þjónustu hverju sinni.

 

Góð þjónusta

Beco heldur gríðarlega mikinn varahlutalager á þeim tegundum ljósmyndabúnaðar sem fyrirtækið hefur umboð fyrir en með því móti geta viðskiptavinir ávallt fengið sem bestu þjónustu.

Viðskiptavinir Beco geta treyst því að fá góða þjónustu hvar sem þeir eru staddir á landinu. Við bjóðum upp á póstkröfusendingar ásamt því að starfrækja vefsíðu þar sem allir hafa jafnan aðgang að verðlistum fyrirtækisins. Ef við getum með einhverju móti aðstoðað þig þá endilega sendu okkur tölvupóst eða hringdu til okkar í síma 533 3411

Tæknideild Beco fær ávallt nýjustu upplýsingar um vörutegundir sem koma á markað og sækir námskeið til þess að vera vel undirbúin áður en vörur koma á markað. Þetta er aðeins einn liður fyrirtækisins til þess að veita viðskiptavinum sínum sem bestu þjónustu og vera með lausnir ef eitthvað kemur upp á. Það má nefna að Baldvin Einarsson var valinn í Global Service Team Canon til þess að annast viðgerðarþjónustu á stærstu viðburðum sem Canon hefur stutt við s.s. Ólympíuleikum ofl.

 

Fjármögnun.

Beco býður uppá ýmsa greiðslumöguleika með aðstoð Valitor og Borgun en mögulegt er að fá raðgreiðslur til allt að 36 mánaða.

 

Sagan

Árið 1971 starfaði Baldvin Einarsson hjá Jóni Sen sem nemi í útvarpsvirkjun. Að 4 árum liðnum hóf hann störf hjá véladeild Heklu sem sölumaður og í gegnum það starf kynntist hann mörgu góðu fólki. Þar með talið framkvæmastjóra hjá Hilmari Helgasyni hf (þáverandi umboðsaðili Canon). Hann sagði í gríni hvort ég vildi gera við myndavélar og ég svaraði leitursnöggt : Já og úr varð að ég var tekinn við þjónustu fyrir Canon myndavélar. Þá hófst ströng þjálfun hjá höfuðstöðvum Canon í Hollandi sem spannaði í 4 ár. Þetta var strangur skóli, stanslausar flugferðir á milli Íslands og Hollands. Þegar skólanum lauk var reiðhjólið pússað upp og notað sem farkostur á milli ljósmyndaverslana en þær voru þá fjórar sem tóku á móti vélum í viðgerð. Þetta var mjög góður tími þar sem ég var með litla krakka sem fengu að sitja á hjólinu með pabba til að ná í vélar til viðgerðar. Á þessum tíma voru vélar mjög dýrar og viðgerðir voru mjög vel þegnar af eigendum en fljótlega kom í ljós að tækjabúnaður til viðgerða var af mjög skornum skammti þannig að ljóst var að fjárfesta þurfti í myndavélagreini af fullkomnustu gerð sem var fluttur til landsins árið 1982 en þá var hægt að framkvæma viðgerðir sem ekki hafði verið hægt að gera áður hér á landi. Verkstæðið var ekki stórt í byrjun, eitt vinnuborð í svefnherbergi okkar hjóna en þegar ljósmyndarar voru orðnir tíðir gestir inni í svefnherbergi okkar var ljóst að það gengi ekki lengur. Þá var tekið á leigu herbergi á Grettisgötu 31 og var starfsemin þar í eitt ár. Síðan festum við kaup á gamalli íbúð á Njálsgötunni og þar var sett upp vinnustofa í kjallara hússins.

Reksturinn blés út og fest voru kaup á framtíðar húsnæði að Barónsstíg 18. Sá staður bauð upp á verslunarrekstur með viðgerðunum en þá vantaði starfsmann og hætti þá konan mín Ingibjörg í sínu sölustjórastarfi hjá Skeljungi til að styðja karlinn.
Enn jukust umsvif fyrirtækisins þar sem æ fleiri fagljósmyndarar sóttu til okkar með flóknar bilanir. Kaffistofan varð vettvangur ljósmyndara með ýmsar vangaveltur um tækjabúnað og það sem meira var, það gerði hana sem skemmtilegan stað til að rabba um það sem gæti vantað inn á íslenskan fotomarkað.

Árið 1985 fékk reksturinn nafnið BECO sem stendur fyrir Baldvin Einarsson Camera Optic og fór þá reksturinn meira í að þjóna ljósmyndurum með sölu á ljósmyndabúnaði. Hasselblad, Manfrotto og Bowens bættust síðan við vöruúrval fyrirtækisins ásamt ýmsu öðru. Með þessari auknu þjónustu þá vantaði annan starfsmann og var þá dóttirin gripin glóðvolg sem sölumaður þar sem hún fékk myndavélabakteríu í móðurmjólkinni og í uppeldi föðursins.

Barónsstígurinn var löngu sprunginn þannig að fest var kaup á húsnæði að Langholtsvegi 84, (gamla Holtsapótek) og var verslunin flutt þangað þann 22. febrúar árið 2000.
Í dag býður Beco upp á alls kyns ljósmyndabúnað frá mörgum birgjum, allt frá filmum til þess nýjasta í stafrænni tækni.